HJÓLAÐ SEGLUM ÞÖNDUM

SNÆFJALLASTRÖND – JÖKULFIRÐIR – ÖNUNDARFJÖRÐUR
5 HJÓLADAGAR


skútu fjallahjólaferð

EINSTAKT FJALLAHJÓLAÆVINTÝRI Á EINSTÖKUM STAÐ

Svæðin norðan og sunnan Ísafjarðardjúps sem við heimsækjum í þessari ferð bjóða uppá endalausa möguleika á skemmtilegu hjólaævintýri um óspillta náttúru.

Bátur er að sjálfsögðu lang besta farartækið til þess að ferðast um á þessu svæði, en það er einmitt skútan Aurora sem verður heimili okkar og fararskjóti í þessari einstöku fjallahjólaferð. Sett verður niður akkeri á nýjum stað á hverjum degi og léttabátur sér um að koma okkur í land með hjólin.

Dagarnir eru skipulagðir með það í huga að hjóla eða sigla á milli staða en hafa líka nægan tíma til þess að slæpast og njóta útivistar. Júní og byrjun júlí er frábær tími, lítil trafík nema jú rebbi, einhverjir ernir og einstaka sjómaður á sveimi við bryggju.


DAGUR 1
HESTFJÖRÐUR
Lagt af stað um hádegisbil frá bryggju á Ísafirði og siglt inní Seyðisfjörð. Þaðan verður hjólað yfir í Hestfjörð og eftir einstigum út fjörðinn að vestanverðu alla leið í Folafót. Þar tekur skútan á móti okkur og siglir yfir í eyjuna Vigur, sannkallaðari perlu í miðju Ísafjarðardjúpi. Förum í land og skoðum okkur um á eynni, þar sem að þúsundir sjófugla hafa valið sér aðsetur og nánast alltaf möguleiki á að sjá haförn eða fálka. Seinnipartinn siglum við aftur af stað og setjum niður akkeri við Snæfjallaströnd.
DAGUR 2
SNÆFJALLASTRÖND
Farið í land einhvers staðar á Snæfjallaströnd. Byrjum á því að hjóla smá bút af frekar grónu einstigi meðfram ströndinni og inn í Unaðsdal. Þaðan tekur við frekar bratt en stutt klifur eftir malarvegi yfir Dalsheiðina yfir í Leirufjörð. Útsýnið á háheiðinni yfir Drangjökul og Jökulfirðina er einstakt.
DAGUR 3
GRUNNAVÍK
Þetta er einn af allra bestu hjóladögunum. Gamal gróinn vegaslóðinn sem leiðir okkur eftir Höfðaströndinni og yfir í Grunnavík er eins og hannaður fyrir fjallahjólin. Við hjólum með strandlengjunni fram hjá eyðibýlum, yfir holt,hæðir og heiðar. Við endum daginn með því að ganga áleiðis upp gömlu póstleiðina, sem lá frá Sandeyri yfir Snæfjallaheiði til Grunnuvíkar, og bruna svo niður aftur þar sem að skútan bíður okkar.
DAGUR 4
SKÁLAVÍK
Dagurinn byrjar á siglingu þvert yfir Ísafjarðardjúp yfir til Bolungarvíkur. Á leiðinni lítum við eftir höfrungum, hnýsum, hnúfubökum eða hrefnum. Hjólum frá Bolungarvík um Skálavíkurheiði í Skálavík. Léttur dagur með aðeins um 10 km áætlaðir hjólaleið. Alveg þess virði að dvelja aðeins í Skálavík sem fór í eyði árið 1964. Siglt inní Önundarfjörð um kvöldið og kíkt í land á Flateyri.
DAGUR 5
ÍSAFJÖRÐUR
Siðasti hjóladagurinn er Breiðdalsheiðin, gamli þjóðvegurinn úr Önundarfirði yfir í Ísafjörð. Síðasti spottinn er leið sem er sérstaklega hönnuð sem fjallahjólaleið og endar beint niðrí bæ. Fullkominn endi á góðum túr. Nægur tími til þess að ná síðdegisflugi til Reykjavíkur fyrir þá sem vilja.

2020
1 - 5 júlí 2020

HÓPASTÆRÐ
6 - 8 manns


SÉRHÓPAR!
Við getum skipulagt þessa ferð fyrir sérhópa sem vilja velja sínar eigin leiðir og dagsetningar.
Sendið okkur fyrirspurn og óskið eftir tilboði: info@bikecompany.is

VERÐ
249.000 ISK
Greiðslur með millifærslu: Banki: 308-26-58041, kt. 580411-1850
INNIFALIÐ
  • Skipstjóri og kokkur
  • Fjallahjólaleiðsögn
  • 4 nætur í kojum í svefnpoka í skútunni Auroru
  • Fullt fæði í 5 daga, (líka nesti) frá hádegismat á degi 1 til hádegisverður á degi 5
  • Nauðsynleg öryggistæki og fyrstu hjálpar búnaður
EKKI INNIFALIÐ
  • Ferðir til og frá Ísafirði
  • Fjallahjól og allur persónulegur búnaður sem er nauðsynlegur fyrir hjólaferð
  • Ferðatryggingar
  • Bús, gos og sælgæti

 

NÆSTU SKREF
Þegar þú hefur bókað ferðina færðu senda staðfestingu og nánari upplýsingar koma tveimur vikum fyrir brottför.

SPURNINGAR?
Endilega sendu okkur tölvupóst ef þú hefur einhverjar spurningar info@bikecompany.is

SEGLBÁTURINN
Er 18,28 metra Colvic Craft smíðuð 1996 sem keppnisbátur. Hún hefur farið 4 sinnum hringinn í kringum hnöttinn og er svo sannarlega fljótandi fjallahótel útbúin öllum helstu nauðsynjum. Stórum kojum, fínu eldhúsi, tveimur klósettum og sturtu. 12 manns í allt komast þægilega fyrir. Geysilega sterk, traust og rúmgóð.
Morgun- og kvöldmatur er undirbúinn og reiddur fram af skipstjóranum sem er meistarakokkur.
Hádegismatur er næringarríkt og hollt nesti sem við gæðum okkur á þegar best hentar yfir daginn.
Við fáum líka með okkur aukaorkubari (þurra ávexti, hnetur, kex og súkkulaði).

* Ef það eru einhverjar séróskir í tengslum við aukaorku þá um að gera að taka slíkt með sér.

ERFIÐLEIKASTIG
Ferð alla fjallahjólara sem telja sig í nokkuð góðu líkamlegu formi. Leiðirnar eru nokkuð tæknilegar á köflum. Þörf er á því að hafa góða stjórn á hraða og bremsum. Dagleiðir eru um 20 - 30 km eða um 5 - 7 klst á dag með hádegishvíldinni. Lítil sem engin hætta er á sjóveiki þegar siglt er lengstu leiðirnar þar sem skútan er mjög stöðug og við siglum aldrei út á opin sjó nema veður leyfi.

STÍGAR OG LEIÐIR
Stærsti hluti leiðarinnar er á þéttum og skemmtilegum fjallvegum sem eru tiltölulega auðveldir og hraðir yfirferðar með hressilega passlegu mixi af grófum línuvegum og einstigum.

FERÐAVAL OG ÖRYGGI
Leiðarlýsingin gæti breyst og jafnvel verið snúið við ef veðurspá sýnir að það henti betur. Þekking og reynsla skipstjóra og leiðsögumanna tryggir besta mögulega öryggi ferðamanna.

TRYGGINGAR
Í fjallahjólaferðum er mikilvægt að vera með góða tryggingu. Ferðatryggingar eru yfirleitt innifaldar í fjölskyldutryggingum og ef ferð er greidd með kreditkorti en við ráðleggjum þér að staðfesta fyrir brottför að þínar tryggingar tryggi þig í þeirri ferð sem þú velur þér, bæði þig og hjólið þitt.

ÚTBÚNAÐARLISTI
Ráðlagður búnaður Tveggja dempara fjallahjól í fullkomnu ástandi, léttur dagspoki, vatnsbrúsi, hlýr svefnpoki, góðir gönguskór og sandalar til að vaða ár.

Fatnaður Vatnsheldur hlífðarfatnaður (buxur og stakkur), undirföt (úr ull, silki eða gerfiefni), göngubuxur, þunn langerma peysa eða skyrta, lopapeysa eða þykk flíspeysa, þunnir fingravettlingar, ullar vettlingar, húfa og/eða buff, 3-4 pör göngusokkar og 1 par ullarsokkar fyrir kvöldin og sundföt.

Smádót Tannbursti, tannkrem, sólaráburður, sólgleraugu, lítinn skyndihjálparpoka, salernispappír, kveikjara, lítið handklæði, vasahnífur, höfuðljós, góð bók, myndavél, auka batterí.

Sameiginlegur búnaður sem hópurinn skiptir með sér:
  • Lágmark fyrstuhjálparbúnaður
  • Burstar, tuskur og nóg af keðjuolíu
  • Pumpur / demparapumpa
  • Fjölverkfæri fyrir hjól
  • Keðjuþvinga
  • Slöngur (Ath. með réttum ventlum m.v. hjól)
  • Dekkjaviðgerðarsett
  • Lítil bensli (plastbönd) / tesateip
  • Keðjuhlekkir
  • Bremsuvökvi og blæðiset
  • Kaplar fyrir afturbremsur/afturgíra
  • Gjörð/dekk
  • Komið endilega með það sem þið eigið á ykkar hjól
  • skútuferð

    MYNDAALBÚMIÐ

    Ljósmyndir segja meira en mörg orðin. Kíktu á nokkrar úr ferðinni okkar í júní 2017.
    skútuferð vídeó

    VIDEÓ

    Stutt myndband sem að var tekið saman úr fyrstu ferðinni í júní 2017. Það gefur góða mynd af því sem koma skal.
    skútuferð

    AURORA-ARKTIKA

    Hér getur þú aflað þér upplýsinga um Aurora-Arktika, skútu-ferðaskipuleggjandann okkar.
    TOP